Sleppa og fara á aðalsíðu

KLASSÍK FRÁ DUX

Sýning í umsjá Pernille Vest

DUX kynnir sýninguna „Klassík“ í tengslum við árlega viðburðinn „3DaysofDesign“ í Kaupmannahöfn. Innanhússhönnuðurinn Pernille Vest hefur sett saman sýninguna „Klassík“ í Gallerí Mikael Andersen sem byggist á klassískum húsgögnum úr smiðju Bruno Mathsson.

„Sýningin „Klassík“ er óður til sígildrar hönnunar Bruno Mathsson hjá DUX. „Klassík“ byggist á samspili hluta eftir skandinavíska samtímahönnuði sem bæði ögra og endurspegla sígilda hönnun Bruno Mathsson, bæði hvað varðar útlit og efnivið“, segir Pernille Vest, innanhússhönnuður og stjórnandi sýningarinnar.

Arkitektinn og hönnuðurinn Bruno Mathsson fæddist í Värnamo í Svíþjóð árið 1907 og hönnun hans hefur haft hvað mest áhrif á húsgagnahönnun í Svíþjóð í gegnum tíðina. Á 7. og 8. áratugnum áttu DUX og Mathsson í nánu samstarfi sem skilaði af sér ýmsum sígildum hönnunarvörum DUX á borð við hægindastólana og skemlana „Ingrid“, „Jetson“, „Karin“, „Karin 73“ og „Pernilla 69“ og hliðarborðið „Karin“.

Bruno Mathsson var einn af forsprökkum stílsins sem seinna var kallaður „sænskur nútímastíll“. Sagan af því þegar Bruno Mathsson settist í skafl til að hanna hið fullkomna húsgagnasnið er jafn sígild og húsgögnin sem hann hannaði. Lögun líkamans og setstaða var ávallt það fyrsta sem Mathsson hugaði að við húsgagnahönnun – samspil húsgagna og fólks.

Eins og hann orðaði það sjálfur:

„Það er ákveðin list að sitja, en þannig ætti það ekki að vera. Þess í stað ætti hönnun húsgagna sem ætluð eru til setu að vera slík list að setan þurfi ekki að verða listgrein.“


– BRUNO MATHSSON

KLASSÍK FRÁ DUX
Gallerí Mikael Andersen
Bredgade 63
1260 Kaupmannahöfn


Sýningin er opin á meðan 3DaysofDesign stendur yfir, frá 15.–17. júní 2022
Opnunartími er frá 10:00–17:00

Skoðaðu vefsvæði 3daysofdesign